Morgunblaðið, laugardaginn 31. maí, 2008
MYNDLIST – gagnrýni eftir Rögnu Sigurðardóttir, Safnasafnið á Svalbarðsströnd
HVAÐ gerist þegar við söfnum, flokkum, færum til, geymum og skrásetjum og hvernig gerist þetta ferli? Eitthvað á þessa leið hljóðar viðfangsefni listamannanna þriggja sem sýna í Safnasafninu á Svalbarðsströnd í tengslum við Listahátíð í Reykjavík.
Safnasafnið sjálft er þeim innblástur. Safnið sem fjallar um söfn og söfnun og er einstakt fyrirbæri hérlendis og þó víðar væri leitað en þar er að finna í samhljómi naífa list, list fólks sem á við geðræn vandamál að stríða, byggðasafnssýningu og samtímalist. Safnið er síðan í góðum tengslum við náttúrulegt umhverfi sitt sem er eins og hluti af því.
Þetta hafa listamennirnir Anna Líndal, Bjarki Bragason og Hildigunnur Birgisdóttir unnið með í sýningu sinni sem þau nefna Greinasafn. Það vísar til náttúrunnar og til þeirrar kvíslgreiningar sem söfnun leiðir af sér, þegar farið er að flokka í flokka og undirflokka auk þeirra smágreina sem birtast í útgáfunni með sýningunni.
Greinasafn er unnið sem ein heild, sjónrænt hryggstykki sýningarinnar er stór grein af lerkitré sem tengir sýningarbásana þrjá uppi undir lofti, en á gólfi er komið fyrir speglum. Stór sýningarskápur í innsta rými hýsir smáútgáfur á listaverkum sem falla vel að heildarhugmyndinni og hér má líka sjá leirtau, leikföng og fleira sem vísar til safna okkar allra, þeirra litlu einkasafna sem er að finna í geymslum eða barnaherbergjum. Baka til í skápnum má sjá stafla af kössum úr Safnasafninu, fulla af gripum sem safnið varðveitir en ekki eru til sýnis. Einnig eru hér myndbönd tekin í umhverfi safnsins en læknum sem kliðar fyrir utan var fylgt eftir og hann og nágrenni hans myndað, aðferðir okkar við að skrásetja náttúruna eru þannig hluti af sýningunni.
Hugmyndin um söfnun og skrásetningu er þema sem hugmyndalistamenn sjöunda og áttunda áratugar síðustu aldar notuðu stundum, en það er til marks um hversu mikið hefur breyst á síðustu áratugum að horfin er sú kerfisbundna svarthvíta framsetning sem stundum einkenndi hugmyndalist. Afi hugmyndalistarinnar, Joseph Kosuth, notaði td. helst ekki liti en í dag er horfin er sú hugmynd að myndlistin megi ekki vera leikur að litum og formum sem þótti svo léttvæg og úr sér gengin nálgun um tíma.
Greinasafn er sýning sem birtir vel hversu færir myndlistarmenn samtímans eru orðnir í hugmyndafræðilegri vinnu verka sinna, framsetningu og sjónrænni útfærslu. Allt er tekið með í reikninginn; viðfangsefnið og eiginleikar þess, samhengi sýningar, þe. sýningarstaður, frelsi til ljóðrænnar nálgunar og þeir möguleikar sem hin alltumlykjandi miðill myndlistin býður upp á. Sýningunni er fylgt úr garði með útgáfu sem tryggir varðveislu hennar, í samræmi við viðfangsefnið. Þessi vönduðu vinnubrögð eru þó kannski aðeins um of innan öruggra marka þess hugmyndafræðilega ramma sem sýningin gengur út frá og verður þetta til þess að sjónrænir þættir hennar njóta sín ekki alveg eins sjálfstætt og ella. Niðurstaðan er engu að síður sérlega vel unnin og eftirminnileg sýning þar sem samvinna er í fyrirrúmi.
Ragna Sigurðardóttir